Raheem Sterling, leikmaður Liverpool, vill ólmur fara frá félaginu eins og mikið hefur verið greint frá síðustu daga, þar sem hann hringdi sig meðal annars inn veikan tvo daga í röð og neitar að fara með liðinu í æfingaferð til Asíu síðar í mánuðinum.
Liverpool vill fá 50 milljónir punda fyrir leikmanninn, en Manchester City er sagt ekki vilja borga meira en 40 milljónir fyrir landsliðsmanninn unga.
Forráðamenn Liverpool vilja hins vegar ekki lækka verðmiðann á Sterling og eru frekar tilbúnir til þess að láta hann dúsa í varaliðinu á næsta tímabili til að kenna honum mannasiði og virðingu, eins og það er orðað í enskum fjölmiðlum.
Stuðningsmenn Liverpool eru margir hverjir þreyttir á hegðun leikmannsins og sumir láta sitt ekki liggja eftir á Twitter: „Sterling á að rotna í varaliðinu.“