Jiri Dvorak, sem er hátt settur innan FIFA hvað læknateymi félaga varðar, hefur sagt að skoðun þjálfara og annarra hjá félögum skipti engu máli þegar heilsa leikmanna er annars vegar. Þar eigi læknateymi ávallt að ráða för.
Mikið hefur verið talað um það þegar Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, hellti sér fyrir læknateymi sitt á dögunum fyrir að hlaupa inn á völlinn án hans leyfis. Dvorak segir Mourinho hafa verið í órétti og tekur þar undir orð annarra sem hafa haldið því fram.
„Þegar kemur að læknisfræðilegum aðstæðum, þá hafa þjálfarar ekkert að segja. Læknar eiga einir að taka ákvörðun og við hjá FIFA munum trygja það. Ef þjálfarar fá að skipta sér af gætu skapast þær aðstæður að leikmenn verða fyrir alvarlegum skaða vegna þess að þeir fá ekki læknisaðstoð. Og í slíkum aðstæðum væri lækninum kennt um, ekki þjálfaranum,“ segir Dvorak.