Ekkert grunsamlegt við kaupin á Gylfa

Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum gegn Chelsea í ágúst.
Gylfi Þór Sigurðsson í leiknum gegn Chelsea í ágúst. AFP

Garry Monk, knattspyrnustjóri Swansea, er sannfærður um að félagið hafi gert allt rétt og samkvæmt reglum þegar það skiptist á leikmönnum við Tottenham í fyrra.

Hollenska félagið Utrecht telur sig enn eiga inni pening hjá Swansea eftir að félagið lét Michel Vorm fara til Tottenham. Utrecht seldi Swansea markvörðinn fyrir 1,5 milljón punda með því skilyrði að fá hluta af næstu sölu leikmannsins. Swansea lét Vorm hins vegar fara frítt til Tottenham og segir ekkert óeðlilegt hafa verið við það.

Á sama tíma fór Ben Davies frá Swansea til Tottenham, og Gylfi Þór Sigurðsson frá Tottenham til Swansea. Forráðamenn Swansea fullyrða að þessi félagaskipti hafi ekkert haft með félagaskipti Vorm að gera.

Utrecht hefur árangurslaust reynt að kæra málið til FIFA. Félagið hefur nú ákveðið að fara með málið fyrir Alþjóða íþróttadómstólinn, CAS. Monk er kunnugt um það en segir Swansea ekkert hafa að óttast:

„Þetta er eitthvað sem félagið þarf að sjá um og ég hugsa lítið um. Framkvæmdastjórinn verður að sjá um þetta. En að okkar leyti þá er allt í góðu lagi. Ég er viss um að félagið hefur farið eftir reglunum frá a til ö. Félagið er fullkomlega rekið. FIFA kvað upp úr um það fyrr á árinu að allt væri í lagi, svo ég held að þetta liggi alveg ljóst fyrir,“ sagði Monk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert