Klopp þarf að sanna sig

Stuðningsmenn Liverpool eru ánægðir með Klopp.
Stuðningsmenn Liverpool eru ánægðir með Klopp. AFP

Sparkspekingurinn og fyrrverandi leikmaður Manchester United, Gary Neville, skilur ekki alveg allt lofið sem Jürgen Klopp, nýráðinn knattspyrnustjóri Liverpool, hefur hlotið síðustu daga. Hann segir að stjórar þurfi venjulega að sanna sig áður en þeir fái hrós.

„Ég veit ekki hvort Klopp les miðlana en er viss um að honum þætti óþægilegt að sjá allt sem hefur verið skrifað um hann,“ skrifaði Neville í pistil fyrir breska blaðið The Telegraph. „Klopp hefur ekki einu sinni stjórnað liði í deildarleik á Englandi, hvað þá unnið leik.“

Klopp tók við sem knattspyrnustjóri Liverpool eftir að Brendan Rodgers var rekinn frá liðinu í byrjun mánaðarins.

Hann bætti við að venjulega þyrftu stjórar að sanna sig, ekki lið að sanna sig fyrir stjórunum. „Það er eins og Liverpool sé að reyna að sanna gildi sitt fyrir Klopp, þegar það ætti að vera akkúrat öfugt. Ég las fyrrverandi leikmenn Liverpool séu að fá gæsahúð yfir ráðningunni og þetta sé fullkomið fyrir Liverpool.“

Neville finnst að Klopp, eins og aðrir, þurfi að sanna sig áður en hann sé lofaður til skýjanna. „Við þurfum að fara í grunngildin. Stjórar þurfa að sanna sig. Leikmenn þurfa að sanna sig. Fólk þarf almennt að sanna sig í lífinu. Nú til dags er fólk hafið upp til skýjanna áður en það hefur sannað nokkurn skapaðan hlut.“

Liverpool sækir Tottenham heim í ensku úrvalsdeildinni á morgun og hefst leikurinn klukkan 11.45. Það verður fyrsti leikur liðsins undir stjórn Klopp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert