Landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson lék allan leikinn fyrir lið sitt Charlton Athletic sem mætti Middlesbrough í 14. umferð ensku B-deildarinnar í knattspyrnu á Riverside Stadium, heimavelli Middlesbrough í dag. Lokatölur í leiknum urðu 3:0 Middlesbrough í vil.
Charlton hefur farið illa af stað á þessu keppnistímabili og var fyrir leikinn með tíu stig í þriðja neðsta sæti deildarinnar.
Slæm byrjun Charlton varð til þess að Ísraelinn Guy Luzon var látin taka poka sinn. Þetta var fyrsti leikur Charlton síðan Belginn Karel Fraeye var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins.
Fraeye tókst ekki að blása lífi í leik Charlton sem er í slæmum málum og fallbarátta blasir við liðinu í vetur.
Jóhann Berg hefur leikið þrettán leiki fyrir Charlton í deildinni í vetur og skoraði í þeim leikjum tvö mörk.