Tekur Mourinho við Manchester United í sumar?

Er Mourinho á leið til Manchester?
Er Mourinho á leið til Manchester? AFP

Fulltrúar Portúgalans José Mourinho hafa rætt við Manchester United um að Mourinho taki við Manchester United. Portúgalinn var rekinn frá Chelsea í desember og er vongóður um að fá að taka við United en BBC greinir frá þessu.

Talið er líklegt að núverandi knattspyrnustjóri United, Louis van Gaal, yfirgefi félagið í sumar, ári áður en samningur hans rennur út. Það myndi gera leiðina að stjórastól United greiða fyrir Mourinho.

Æðstu stjórnarmenn hjá Manchester United eru taldir vilja svara fyrir sig en nágrannar þeirra í Manchester City tilkynntu í vikunni að Spánverjinn Pep Guardiola taki við stjórn félagsins í sumar. Taki Mourinho við United myndi það þýða endurfundi hjá erkifjendunum en þeir háðu harða baráttu sem knattspyrnustjórar Real Madrid og Barcelona frá 2010 til 2013.

Manchester United er sem stendur í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum frá 4. sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. United sækir Chelsea heim í deildinni á sunnudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert