Afar ósáttir við leikjaniðurröðunina

Það verður nóg að gera hjá Manuel Pellegrini og lærisveinum …
Það verður nóg að gera hjá Manuel Pellegrini og lærisveinum hans hjá Manchester City í febrúar. AFP

Forráðamenn Manchester City eru afar ósáttir með að bikarleikur liðsins gegn Chelsea sem fram fer seinna í mánuðnum sé á dagskrá þremur dögum áður en liðið mætir Dynamo Kiev í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 

Heimildir Sky Sports herma að forráðamenn Manchester hafi ritað enska knattspyrnusambandinu bréf þar sem óánægja félagsins er látin berlega í ljós.  

Leikur Manchester City gegn Chelsea í fimmtu umferð ensku bikarkeppninnar sem leikinn verður á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea, átti að fara fram laugardaginn 20. febrúar.

Nú hefur leikurinn hins vegar verið færður og hefst klukkan 16.00 sunnudaginn 21. febrúar, degi áður en Manchester City heldur í langt ferðalag til Úkraínu. Manchester City mætir svo Dynamo Kiev þremur dögum síðar í fyrri leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.  

Manchester City mun leika fjóra leiki á 11 dögum á þessum tímapunkti og Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, mun líklega tefla fram veikara liði en ella í bikarleiknum gegn Chelsea.

Auk bikarleiksins gegn Chelsea og útileiksins gegn Dynamo Kiev í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu mun Manchester City mæta Liverpool tvívegis með þriggja daga millibili. Annars vegar í úrslitaleik enska deildabikarsins á Wembley 28. febrúar og hins í ensku úrvalsdeildinni á Anfield, heimavelli Liverpool, 2. mars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert