Bjarni Felixson er aðalumfjöllunarefni í blaðagrein breska dagblaðsins The Guardian í dag. Þar segir frá þeim áhrifum sem þessi fyrrum leikmaður KR og íþróttafréttamaður þjóðarinnar hefur haft á íslenska knattspyrnu í gegnum tíðina. Þau eru ekki lítil.
Dregin er upp öskubuskuævintýrismynd af íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og hversu langan veg það hefur gengið frá fyrsta landsleik þess árið 1946 við Dani og síðar meir er liðið tapaði stórt gegn Frökkum og Belgíu í fyrstu forkeppni landsliðsins sem að tók þátt í fyrir heimsmeistaramótið í Sviss árið 1954. Svo ekki sé minnst á 14:2 tapið gegn Dönum árið 1967.
Ávallt er minnst á knattspyrnuhallirnar og góða menntun íslenska knattspyrnuþjálfara en sjaldnar er minnst á Bjarna Fel, segir í greininni sem blaðamaðurinn Scott Murray skrifar.
„Hægt er að rökstyðja það að hann hafi hafi hvað mest áhrif af öllum. […] Hann færði fyrsta flokks fótbolta inn í stofur landsmanna fyrstur allra og hafði þannig áhrif. Þannig menntaði hann framtíðar kynslóðir stuðningsmanna og leikmanna,” segir Murray.
„Það var ekki hægt að fylgjast mikið með fréttum. Við gátum hlustað á BBC World Service í útvarpinu. Sunnudagsblöðin komu til Rekjavíkur og voru seld í bókabúðum á þriðjudögum. Þá lásum við um leikina. Það var skrýtinn hópur náunga sem fylgdist með fótbolta í þá daga. Það breyttist allt þegar sjónvarpið kom til sögunnar,” segir Bjarni sjálfur en það var skömmu eftir 1966.
Bjarni sagði einnig í greininni frá skemmtilegri sögu er hann var leikmaður KR og mætti enska stórliðinu Liverpool í Evrópukeppninni. Þá var goðsögnin Bill Shankly við stjórnvölinn.
„Bill Shankly var mjög góður náungi, mjög skemmtilegur. Hann var leikmönnum sínum sem faðir. Hann var mjög ánægður að vera í Reykjavík því í þá daga var ekki löglegt að drekka bjór. Hann gat hleypt liðinu sínu niður í bær og ekki haft áhyggjur af neinu,” segir Bjarni sem sagði einnig að sú staðreynd að KR-liðið hefði ferðast á Anfield með strætó þegar liðið átti að leika gegn Liverpool hafi gert liðið mjög vinsælt þar í borg.