Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson átti sviðið á lokahófi Swansea í kvöld. Hann vann alls til þriggja verðlauna á hófinu, auk þess sem hann deildi þeim fjórðu.
Gylfi var útnefndur útileikmaður ársins, verðmætasti leikmaður ársins að mati liðsfélaga sinna og besti leikmaður ársins að mati stuðningsmanna félagsins. Þá var hann jafn Andre Ayew í efsta sæti yfir markahæsta leikmann ársins, en báðir skoruðu þeir ellefu mörk.
Þegar einni umferð er ólokið í ensku úrvalsdeildinni er Swansea í ellefta sætinu með 46 stig, eftir að hafa verið í harðri fallbaráttu framan af vetri.