Nú þegar ljóst er að Louis van Gaal mun hverfa á braut frá Old Trafford vakna spurningar um framtíð Ryan Giggs hjá Manchester United. Framtíðarsýn Louis van Gaal var sú að Giggs tæki við stjórnartaumunum hjá Manchester United eftir sinn tíma, en nú er ljóst að Hollendingurinn mun ekki stýra atburðarásinni hjá félaginu.
Ryan Giggs hefur verið aðstoðarmaður hjá bæði David Moyes og Louis van Gaal og Wales-búinn tók við liðinu tímabundið undir lok tímabilsins 2014 eftir að Moyes var látinn taka pokann sinn. Giggs hefur verið sauðtryggur þjónn Manchester United í 29 ár, en enskir fjölmiðlar gera því skóna í dag að kafla hans hjá félaginu muni nú ljúka.
Talið er að Giggs hafi ekki áhuga á að vera í þjálfarateymi Jose Mourinho fari svo sem allt bendir til að portúgalski knattspyrnustjórinn taki við keflinu af Louis van Gaal, fyrrum lærimeistara sínum. Giggs ku hafa áhuga á því að hækka um sess og gerast knattspyrnustjóri hjá félagi og muni færa sig um set standi það honum ekki til boða hjá Manchester United.