Tilkynningin hafði truflandi áhrif

Manuel Pellegrini, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester City.
Manuel Pellegrini, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Manuel Pellegrini, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester City, telur að tilkynning stjórnarmanna félagsins hafi haft truflandi áhrif á leikmenn liðsins.

Manchester City var þremur stigum á eftir Englandsmeisturunum, Leicester City, þegar tilkynnt var í febrúar að Manuel Pellegrini myndi hverfa á braut í sumar og Pep Guardiola myndi taka við starfi hans hjá Manchester City. 

Manchester City tapaði þremur leikjum í röð í kjölfar tilkynningarinnar og og hafnaði að lokum í fjórða sæti deildarinnar 15 stigum frá toppliði deildarinnar. 

„Eftir að Guardiola gaf út að hann myndi halda til Englands til þess að taka við liði næsta sumar þá ákvað ég að opinbera að ég myndi hætta sem knattspyrnustjóri Manchester City eftir keppnistímabilið. Guardiola var orðaður við Arsenal og Manchester United og ég taldi ekki sanngjarnt gagnvart þeim félögum að halda áformum Manchester City leyndum,“ sagði Pellegrini í samtali við Guardian. 

„Ég er afar gagnrýninn á sjálfan mig og gagnrýni eigin ákvarðanir iðulega. Það er ekki ætlunin að nota þetta sem afsökun fyrir slæmu gengi liðsins seinni hluta tímabilsins. Það var hins vegar erfitt að halda fullri einbeitingu eftir tilkynninguna, ekki fyrir mig sjálfan heldur leikmennina,“ sagði Pellegri enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert