Liverpool hefur gert nýjan langtímasamning við knattspyrnustjórann Jürgen Klopp sem ráðinn var til félagsins í október í fyrra og kom liðinu í úrslitaleik Evrópudeildarinnar og enska deildabikarsins.
Klopp skrifaði á sínum tíma undir samning sem gilti aðeins til ársins 2018, en eigendur Liverpool eru ánægðir með Þjóðverjann og hann hefur nú skrifað undir nýjan samning sem gildir til ársins 2022.
Aðstoðarmenn Klopps, þeir Zeljko Buvac og Peter Krawietz, fengu einnig nýja samninga.
„Það er erfitt að lýsa því í orðum hve stoltir við erum af því trausti sem eigendurnir og félagið í heild sinni hafa sýnt okkur. Ég er fyrstur til að viðurkenna að þessari miklu skuldbindingu fylgir mikil ábyrgð,“ sagði Klopp.