Þýski miðjumaðurinn Bastian Schweinsteiger þurfti að hreinsa úr skápnum sínum hjá aðalliði Manchester United og færa dótið sitt í skáp hjá varaliðinu samkvæmt þýska blaðinu Bild.
Eftir að José Mourinho var ráðinn knattspyrnustjóri Manchester United hefur verið orðrómur um að Schweinsteiger sé ekki í plönum Mourinhos fyrir komandi tímabil og þurfi að finna sér annað félagslið í sumar. Hann var ekki í leikmannahópi liðsins þegar það mætti tyrkneska liðinu Galatasaray í vináttuleik á dögunum.
Schweinsteiger gekk til liðs við United fyrir ári en kom einungis við sögu í 13 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann tilkynnti nýverið að hann væri hættur þátttöku með þýska landsliðinu. Hann lék 120 landsleiki og skoraði 24 mörk og var fyrirliði eftir að Þýskaland varð heimsmeistari fyrir tveimur árum.