Þetta er ekki jákvætt mál

Klopp var ánægður með leik Liverpool í gær en ekki …
Klopp var ánægður með leik Liverpool í gær en ekki eins ánægður með yfirlýsingar Sakho. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, ætlar að taka á máli varnarmannsins Mamdou Sakho. Sá síðarnefndi kvartaði sáran á samfélagsmiðlum fyrir helgi yfir meðferðinni sem hann fær hjá Liverpool.

Sahko hefur ekki fengið nein tækifæri með Liverpool á tímabilinu en hann var sendur heim úr æfingaferð liðsins á undirbúningstímabilinu.

Sakho hafnaði því að ganga til liðs við Stoke á láni í ágúst jafnvel þótt Klopp hafi sagt að það myndi gera honum gott að leika með öðru liði.

„Ég sætti mig við ástandið en ég get ekki sætt mig við lygina. Stuðningsmennirnir verða að vita sannleikann. Það eru þrjár vikur síðan ég var klár í slaginn en þeir vilja ekki einu sinni að ég spili með varaliðinu! Ég hef ekki hugmynd um af hverju,“ sagði Sakho á föstudaginn á Snapchat.

„Mér var sagt frá því í morgun að þetta væri eitthvað sem ég ætti að vita. Ég er með hugann við aðra hluti á leikdegi og ekki í skapi til að kljást við svona mál,“ sagði Klopp eftir 5:1-sigur Liverpool á Hull í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Það er ekki rétt að tala um þetta mál núna. Yfirleitt er betra að hugsa málið áður en maður segir eitthvað. Þetta er ekki jákvætt og ég mun taka á málinu,“ bætti Klopp við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert