Enska knattspyrnusambandið ætlar að taka til skoðunar ummæli José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, en hann viðraði skoðun sína á því að ákveðið hefði verið að Anthony Taylor muni dæma leik Liverpool og Manchester United og annað kvöld.
Efast hefur verið um hversu heppilegt það sé að Taylor dæmi stórleikinn þar sem hann býr í Manchester. Taylor hefur þó engar taugar til Manchester United, en hann er harður stuðningsmaður utandeildarliðsins Altrincham.
Mourinho tjáði sig um þá ákvörðun að láta Taylor dæma leikinn milli erkifjendanna á blaðamannafundi í dag, en knattspyrnustjórum er óheimilt að tjá sig um dómara sem munu dæma í leikjum þeirra, samkvæmt reglum sem enska knattspyrnusambandið setti árið 2009.
„Mér finnst Mr. Taylor afar góður dómari, en það er verið að setja hann undir mikla pressu með því að benda á það hvar hann býr. Það verður erfitt fyrir Mr. Taylor að dæma leikinn vel að mínu mati,“ sagði Mourinho á blaðamannafundinum.
Enska knattspyrnusambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að sambandið muni skoða ummæli Mourinho um Taylor. Félögum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla hefur verið leiðbeint um þær reglur sem gilda um málið og mögulegt er að Manchester United fái sekt fyrir ummæli Mourinho um Taylor.