Wayne Rooney fyrirliði Manchester United getur skráð nafn sitt í sögubækur ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.
Takist Rooney að skora gegn Liverpool á Anfield í kvöld verður hann sá leikmaður sem skorað hefur flest mörk á útivelli frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992. Rooney og Alan Shearer deila metinu en báðir hafa þeir skorað 87 mörk á útivelli.
Rooney mun að öllum líkindum byrja á bekknum í kvöld en fyrirliðinn hefur mátt sætta sig við að verma varamannabekkinn í síðustu þremur leikjum United auk þess sem hann missti sæti sitt í byrjunarliði Englands.
Markahæstu leikmenn á útivelli eru:
87 - Alan Shearer, Wayne Rooney
85 - Frank Lampard
83 - Andrew Cole
70 - Michael Owen
67 - Robin van Persie
64 - Teddy Sheringham
60 - Robbie Fowler
59 - Ryan Giggs
58 - Jermain Defoe