Toure hetja City – Gylfi skoraði í jafntefli

Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að skora gegn Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson er búinn að skora gegn Everton. AFP

Sex leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag en Yaya Toure reyndist hetja Manchester City er hann skoraði bæði mörk liðsins í 2:1 sigri á Crystal Palace. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði í jafntefli gegn Everton og Liverpool gerði markalaust jafntefli við Southampton.

Southampton og Liverpool gerðu markalaust jafntefli á St. Mary's-leikvanginum í dag en gestirnir fengu fjölmörg tækifæri til þess að skora en tókst ekki. Roberto Firmino fékk besta færi gestanna í síðari hálfleik en honum brást bogalistin af stuttu færi.

Öflugi miðjumaðurinn Yaya Toure var í fyrsta sinn í byrjunarliði Manchester City á leiktíðinni og þakkaði hann fyrir það með tveimur mörkum. Hann kom City yfir gegn Crystal Palace á 39. mínútu áður en Connor Wickham jafnaði metin um miðjan síðari hálfleik. Það var svo þegar sjö mínútur lifðu leiks er Toure tryggði City öll stigin með góðu marki.

Everton og Swansea City skildu þá jöfn á Goodison Park 1:1. Gylfi Þór Sigurðsson kom Swansea yfir á 41. mínútu með marki úr vítaspyrnu en hann fiskaði spyrnuna sjálfur eftir að Phil Jagielka braut á honum innan teigs. Það var útlit fyrir að Swansea myndi ná í mikilvægan sigur í dag en Seamus Coleman hélt ekki. Hann jafnaði metin í uppbótartíma og rændi þar með tveimur stigum af gestunum. Lokatölur 1:1.

Watford sigraði Leicester City 2:1. Etienne Capoue kom Watford yfir á fyrstu mínútu leiksins eftir sendingu frá Troy Deeney og tólf mínútum síðar var Roberto Pereyra búinn að bæta við öðru. Riyad Mahrez minnkaði muninn á 15. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Jamie Vardy innan teigs en lengra komust Englandsmeistararnir ekki og 2:1 sigur Watford staðreynd.

Sunderland vann þá Hull City 3:0. Jermaine Defoe skoraði sitt 150. mark í úrvalsdeildinni áður en Victor Anichebe bætti við tveimur mörkum í síðari hálfleik. Papy Djilobodji fékk svo að líta rauða spjaldið í liði Sunderland undir lok leiks. Bournemouth vann þá Stoke 1:0. Nathan Ake skoraði markið.

Liverpool er á toppnum eftir úrslit dagsins með 27 stig. Manchester City er með jafnmörg stig en lakari markatölu. Chelsea er í þriðja sæti með 25 stig en liðið getur tekið toppsætið á morgun með sigri. Arsenal kemur svo í fjórða sæti með jafnmörg stig.

Fylgst verður með gangi mála hér á mbl.is.

Crystal Palace 1:2 Manchester City
Everton 1:1 Swansea City
Southampton 0:0 Liverpool
Stoke City 0:1 Bournemouth
Sunderland 2:0 Hull City
Watford 2:1 Leicester City

Leikjunum er lokið.

90. MAAAARK!!! Everton 1:1 Swansea. Seamus Coleman að jafna fyrir Everton í blálokin. Svekkjandi fyrir gestina í Swansea.

90. RAUTT SPJALD!! Sudnerland 3:0 Hull. Papy Djilobodji fær að líta rautt spjald.

84. MAAAAARK!!! Sunderland 3:0 Hull. Victor Anichebe bæti við öðru marki fyrir Sunderland og lokar leiknum.

83. MAAAAARK!!! Crystal Palace 1:2 Man. City. HVER ANNAR EN YAYA TOURE! Hann er mættur dömur mínar og herrar. Þvílík innkoma í byrjunarliðið.

82. Southampton 0:0 Liverpool. Það er náttúrlega með ólíkindum að Liverpool er ekki komið yfir gegn Southampton. Liðið veður í færum en boltinn vill ekki inn. 

66. MAAAAARK!!! Crystal Palace 1:1 Man. City. Connor Wickham að jafna gegn City.

62. MAAAARK!!! Sunderland 2:0 Hull. Victor Anichebe að bæta við öðru marki fyrir Sunderland. Þægilegt hjá þeim í dag.

Hálfleikur.

41. MAAAAARK!!! Everton 0:1 Swansea. Gylfi Þór Sigurðsson að koma Swansea yfir með marki úr vítaspyrnu. En ekki hver? Phil Jagielka braut á Gylfa innan teigs og auðvitað tók hann vítið bara sjálfur.

39. MAAAAARK!!! Crystal Palace 0:1 Man City. Yaya Toure að koma City yfir undir lok fyrri hálfleiks. Fyrsti byrjunarliðsleikur hans og auðvitað fagnar hann því með marki.

34. MAAAAARK!!! Sunderland 1:0 Hull. Jermain Defoe að skora 150. úrvalsdeildarmarkið sitt. Það er aldeilis!

26. MAAAARK!!! Stoke 0:1 Bournemouth. Hinn ungi og efnilegi Nathan Ake að skora eftir sendingu frá Junior Stanislas.

15. MAAAARK!!! Watford 2:1 Leicester City. Riyad Mahrez að minnka muninn. Við erum með leik á Vicarage Road!

15. VÍTI!!! Watford 2:0 Leicester City. Gestirnir fá vítaspyrnu. Miguel Britos braut á Jamie Vardy.

12. MAAAAAARK!!! Watford 2:0 Leicester City. Það er fyrrverandi leikmaður Juventus, Roberto Pereyra, sem bætir við öðru marki. Heimamenn í Watford í þrælgóðum málum.

1. MAAAAAAAARK!!!! Watford 1:0 Leicester City. Etienne Capoue að koma heimamönnum yfir eftir sendingu frá Troy Deeney. Þetta var ekki lengi að gerast. Englandsmeistarnir eru undir.

1. Leikirnir eru farnir af stað.

0. Leikirnir verða uppfærðir jafnóðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert