Birkir Bjarnason var í dag kynntur sem nýr leikmaður enska knattspyrnufélagsins Aston Villa. Hann kemur til félagsins frá Basel í Sviss.
Birkir skrifaði undir samning til þriggja og hálfs árs, eða til sumarsins 2020.
Birkir, sem er 28 ára landsliðsmaður, kom til Basel sumarið 2015 eftir að hafa leikið í þrjú ár á Ítalíu, með Pescara og Sampdoria. Hann var áður leikmaður Standard Liege í Belgíu og Viking í Noregi.
Samkvæmt frétt BBC greiðir Villa Basel 1,75 milljón punda, jafnvirði um 255 milljóna króna, fyrir Birki.
Villa, sem leikur undir stjórn Steve Bruce, er í 13. sæti ensku B-deildarinnar með 36 stig, níu stigum frá næsta umspilssæti um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Villa féll úr úrvalsdeildinni síðasta vor.
Villa kynnti nýjan leikmann fyrr í dag en félagið fékk hægri bakvörðinn James Bree, sem er 19 ára gamall, frá Barnsley.
Birkir verður annar Íslendingurinn sem spilar fyrir Villa en Jóhannes Karl Guðjónsson lék sem lánsmaður hjá félaginu 2003, þegar hann var leikmaður Real Betis.
Breaking news: We’re delighted to announce the signing of Birkir Bjarnason from FC Basel. #WelcomeBirkir #AVFC pic.twitter.com/Xz1G2fidTu
— Aston Villa FC (@AVFCOfficial) January 25, 2017