Jón Daði Böðvarsson og Aron Einar Gunnarsson, samherjarnir í íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu, mættust með liðum sínum, Wolves og Cardiff City, í ensku B-deildinni í dag. Jón Daði og félagar hans nældu sér í mikilvæg stig í fallbaráttu deildarinnar með 3:1-sigri í leik liðanna í dag.
Aron Einar lék allan leikinn fyrir Cardiff City, en Jón Daði hóf leikinn á varamannabekk Wolves og kom síðan inn á sem varamaður á 73. mínútu leiksins.
Wolves skaust upp í 16. sæti deildarinnar með 48 stig eftir þennan sigur og er nú átta stigum frá fallsæti. Cardiff City er hins vegar í 14. sæti deildarinnar með 51 stig.
Hörður Björgvin Magnússon sat allan tímann á varmannabekk Bristol City þegar liðið laut í lægra haldi gegn Brentford með tveimur mörkum gegn engu. Bristol City er í 21. sæti deildarinnar með 41 stig, en liðið er í sætinu fyrir ofan fallsætin og er einu stigi á undan Blackburn Rovers sem er sæti neðar.
Ragnar Sigurðsson var sömuleiðis ónotaður varamaður þegar Fulham steig skref í átt að umspili um sæti í efstu deild á næstu leiktíð með 1:0-sigri gegn Rotherham United. Fulham er eins og sakir standa í sjötta sæti deildarinnar með 64 stig, en sjötta sætið er síðasta sætið in í umspilið.
Birkir Bjarnason var fjarri góðu gamni vegna meiðsla í liði Aston Villa sem vann 2:0-sigur gegn Norwich City. Aston Villa siglir lygnan sjó um miðja deild, en liðið er í 11. sæti deildarinnar með 54 stig.