„Þetta er eitt af þeim augnablikum sem ég er hvað stoltastur af. Þetta var frábær frammistaða. Það var gríðarlega mikilvægt að vinna í dag eftir úrslitin hjá Hull,“ sagði Paul Clement stjóri Swansea við BT Sports eftir sigur liðsins á Everton sem kom Swansea upp úr fallsæti á kostnað Hull sem tapaði gegn Sunderland fyrr í dag.
„En þetta er ekki búið. Þetta sem gerðist þessa helgi sýnir bara hvernig þetta getur sveiflast fram og til baka. VIð þurfum að fara og ná í þrjú stig (gegn Sunderland),“ sagði Clemence við BBC.
„Stuðningurinn var frábær í dag. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að fara að borga 3000 stuðningsmönnum til þess að fara norður í næstu viku,“ sagði Alfie Mawson, varnarmaður Swansea við BBC eftir sigurinn en liðið mætir Sunderland í næstu viku.
Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Everton var ekki sáttur með leik sinna manna í dag. „Þetta var ekki nógu gott,” sagði Koeman.
„Við þurfum að vera grimmari í teignum. En vandamálið síðustu vikur hefur verið að skapa færi. Við höfum ekki skorað í síðustu þremur leikjum,“ sagði Koeman.
Þar gæti Gylfi Þór, sem hefur verið sterklega orðaður við Everton síðustu vikur, komið sterkur inn en Koeman talaði afar vel um Gylfa fyrir leikinn og lagði afar mikla áherslu á að Everton myndi passa föstu leikatriðin, þar sem Gylfi Þór er sérfræðingur. Hvers vegna?
„Vegna þess að hann er mjög góður leikmaður,” sagði Koeman fyrir leikinn.
Spurður enn fremur hvort honum líkaði við Gylfa Þór svaraði Koeman og brosti: „Það er undir þér komið (að lesa í það),“ sagði Koeman.