Væri fullkominn í leikkerfi Tottenham

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. AFP

„Það kemur ekkert á óvart að sjá að Gylfi Sigurðsson sé orðaður við endurkomu til Tottenham. Fyrir utan efstu sex liðin er hann sá leikmaður sem hefur mestu tækni og er mest skapandi,“ segir Glenn Hoddle, fyrrverandi landsliðsþjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu sem spilaði með Tottenham á árum áður.

Gylfi hefur á síðustu dögunum verið orðaður við Tottenham en hann fór frá liðinu til Swansea fyrir þremur árum þar sem hann hefur blómstrað.

„Í liði Swansea sem var í vandræðum lagði hann upp 13 mörk og skoraði 9 mörk. Hann er sérfræðingur í aukaspyrnum og getur notað báða fætur. Þegar hann yfirgaf Tottenham þá var hann spila úti vinstra megin í leikkerfinu 4-4-2 og þú varst aldrei að fá það besta út úr honum.

Hann er betri leikmaður núna en fyrir þremur árum og staðreyndin er sú að hann væri tilvalinn fyrir Tottenham í því leikkerfi sem það spilar, með Dele Alli og Christian Eriksen. Hann gæti spilað vinstra megin, hægra megin eða inni á miðjunni. Gylfi er frábær miðjumaður, einn sá allra besti í deildinni. Hann yrði sannarlega góð viðbót fyrir Tottenham,“ skrifar Hoddle í vikulegan dálk í Daily Mail.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert