Spurningin hvort Gylfi Þór Sigurðsson standi undir þeim gríðarlega háa verðmiða sem á honum er í kjölfar komandi félagaskipta hans frá Swansea til Everton hefur verið í umræðunni. Kaupverðið á Gylfa er 45 milljónir punda, 6,3 milljarðar króna, en staðreyndirnar tala sínu máli.
Frá því að Gylfi spilaði sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni árið 2011 hefur hann skorað fleiri mörk úr aukaspyrnum en nokkur annar leikmaður deildarinnar. Gylfi hefur skorað sjö mörk beint úr aukaspyrnum en þeir Robert Snodgrass, Wayne Rooney, Christian Eriksen og Juan Mata hafa á þeim tíma skorað sex.
Enginn leikmaður hljóp meira en Gylfi á öllu síðasta tímabili í úrvalsdeildinni. Gylfi hljóp alls 433 kílómetra í deildinni og sama hvert er litið á hin liðin þá hljóp enginn meira.
Aðeins einn leikmaður fyrir utan Gylfa skoraði fleiri mörk gegn efstu sex liðunum á síðasta tímabili. Gylfi skoraði fimm mörk gegn toppliðunum og aðeins Jamie Vardy hjá Leicester skoraði fleiri, eða sex.
Enginn gaf fleiri stoðsendingar úr föstum leikatriðum á síðustu leiktíð heldur en Gylfi. Hann gaf alls átta slíkar stoðsendingar, fleiri en nokkur annar í deildinni.
Og talandi um stoðsendingar, ef litið er til síðustu fjögurra ára í úrvalsdeildinni er Gylfi í 5. sæti allra leikmanna yfir flestar stoðsendingar. Gylfi hefur lagt upp 26 mörk á síðustu fjórum árum en aðeins þeir Cesc Fábregas, Mesut Özil, Christian Eriksen og Kevin De Bruyne eru með fleiri stoðsendingar.
Gylfi kom við sögu í tæplega 49% marka Swansea á síðustu leiktíð, þar sem hann annað hvort skoraði markið sjálfur eða lagði það upp.
Síðast en ekki síst þá er Gylfi bæði markahæsti leikmaðurinn í sögu Swansea í úrvalsdeildinni með 34 mörk og jafnframt hefur enginn í sögu félagsins lagt upp fleiri mörk í úrvalsdeildinni, eða 29 talsins.