Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir að José Mourinho, stjóri United, sé loks búinn að koma liðinu á rétta braut.
„United er komið til baka og liðið lítur þannig út núna að það geti barist um að vinna stóru titlana. Síðustu árin hefur liðið litið þannig út að það hefur getið verið með í baráttunni um að vinna deildabikarinn eða einhverja minni titla en nú er staðan önnur.
Liðið er tilbúið í að keppa um sigurinn í ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni,“ sagði Keane í viðtali við ITV-sjónvarpsstöðina þegar hann fylgdist með liðinu í leiknum gegn CSKA Moskva í Meistaradeildinni.
Keane er afar ánægður með frammistöðu framherjans Romelu Lukaku, sem hefur nánast skorað í hverjum leik með United frá því hann kom til liðsins frá Everton í sumar.
„Lukaku er afar góður leikmaður og á góðum aldri. Hann þekkir ensku úrvalsdeildina og hefur byrjað sinn feril hjá United virkilega vel. Þetta er stór og sterkur strákur sem lætur vel í sér heyra, er baneitraður í teignum og öflugur karakter. Ég sé fyrir mér að hann muni skora 25-30 mörk á tímabilinu.“