City hrasaði en hélt sigurgöngunni áfram

Kyle Walker og Raheem Sterling fagna marki þess síðarnefnda gegn …
Kyle Walker og Raheem Sterling fagna marki þess síðarnefnda gegn Huddersfield. AFP

Manchester City mátti hafa mikið fyrir 2:1-sigri á Huddersfield í lokaleik 13. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag. Þetta er átjándi sigur City í röð þegar leikir úr öllum keppnum eru taldir.

City-menn eru því aftur komnir með átta stiga forskot á Manchester United á toppi deildarinnar, en þeir eru með 37 stig af 39 mögulegum. Huddersfield er í 11. sæti með 15 stig.

Huddersfield var yfir í leikhléi, eftir sjálfsmark Nicolas Otamendi í uppbótartíma fyrri hálfleiksins. Forskotið fuðraði hins vegar upp nánast um leið og seinni hálfleikur hófst því Raheem Sterling krækti þá í vítaspyrnu sem Sergio Agüero skoraði af öryggi úr.

City-menn voru svo með boltann hátt í 90% leiktímans eftir að þeir jöfnuðu, en gekk erfiðlega að koma sér í góð færi þangað til að Sterling skoraði sigurmarkið á 84. mínútu. Boltinn skoppaði af Sterling og í markið eftir að Jonas Lössl hafði varið skot varamannsins Gabriel Jesus. Huddersfield varð lítið ágengt við að skapa sér færi til að jafna metin eftir þetta og niðurstaðan varð því 2:1-sigur City.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Huddersfield 1:2 Man. City opna loka
90. mín. Fimm mínútur í uppbótartíma. Heimamenn eiga enn von um að ná í stig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert