José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur skotið á Jürgen Klopp, kollega sinn hjá Liverpool.
Liverpool er að borga Southampton 75 milljónir punda fyrir Virgil van Dijk og gera hann um leið að langdýrasta varnarmanni sögunnar. Mourinho minnist við það tækifæri ummæla Klopp þegar United keypti Paul Pogba á 89 milljónir punda sumarið 2016 sem gerði hann þá að dýrasta leikmanni heims.
Klopp sagði á þeim tíma að hann myndi frekar hætta í fótboltanum heldur en að taka þátt í þessu kapphlaupi um leikmenn fyrir himinháar fjárhæðir. Nú segir hann hins vegar að verðmiðinn á van Dijk skipti engu máli og Mourinho minnti hann á þennan snögga viðsnúning í viðtali í dag auk þess sem hann tjáði sig frekar um kaupin.
„Raunveruleikinn er sá að þegar þeir halda að einhver sé réttur leikmaður og þá þurfa þeir að borga fyrir það að eignast hann. Þú gætir þurft að borga fáránlega upphæð og ef ekki þá færðu ekki leikmanninn. Svo einfalt er það. Ég gagnrýni Liverpool ekki fyrir kaupin, því svona er þetta bara,“ sagði Mourinho.