Sakar Firmino um rasisma

Mason Holgate, lengst til hægri, er hér stöðvaðaður af liðsfélaga …
Mason Holgate, lengst til hægri, er hér stöðvaðaður af liðsfélaga sínum. AFP

Búast má við því að enska knattspyrnusambandið muni setja af stað rannsókn vegna ásakana Mason Holgate, varnarmanns Everton, sem segir að brasilíski sóknarmaðurinn Roberto Firmino hjá Liverpool hafi viðhaft rasísk ummæli í sinn garð í sigri Liverpool á Everton í enska bikarnum í gærkvöldi.

Upp úr sauð er Holgate var í baráttunni við Firmino sem endaði með því að sá fyrrnefndi ýtti hressilega á bak Brasilíumannsins upp við hliðarlínuna og endaði hann upp í stúku. Firmino brást illa við og tók á rás í átt að Holgate og jós yfir hann fúkyrðum. Við því brást Holgate afar illa og þurftu liðsfélagar hans að halda aftur af honum en hann virtist einnig hafa látið dómara leiksins Robert Madley vita og ræddi einnig við hann eftir leik.

Búast má við því að ásakanir Holgate verði settar í leikskýrslu Madley sem verður svo send til enska knattspyrnusambandsins sem mun svo dæma hvort grípa þurfi til frekari aðgerða, segir í frétt The Guardian.

Talsmaður Liverpool sagði eftir leikinn að félagið og Firmino muni vinna að fullu með knattspyrnuyfirvöldum til þess að tryggja að sannleikurinn komi í ljós. Firmino var beðinn um að segja ekkert um atvikið eftir leikinn.

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, neitaði að ræða atvikið eftir leik. „Ég mun ekki segja ykkur neitt fyrr en eftir að það er búið að finna út úr því hvað gerðist með kerfisbundnum hætti,“ sagði Allardyce. „Ég er hérna til þess að tala um fótbolta, ekki um umdeildar ákvarðanir.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, sagði eftir leikinn: „Ég heyrði eittthvað en ég má ekkert segja að svo stöddu. Fjórði dómarinn sagði eitthvað við mig. Ég heyrði ekki nein orðaskipti þannig að ég hélt að þeir væru að fara að rannsaka brotið á Firmino. Svona skildi ég þetta fyrst en svo sagði fjórði dómarinnn mér að það væri ekki það,“ sagði Klopp.

Íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson skoraði mark Everton í gær og jafnaði metin eftir að James Milner hafði komið Liverpool yfir úr vítaspyrnu. Hollenski varnarmaðurinn Virgil van Dijk skoraði sigurmarkið í sínum fyrsta leik fyrir Liverpool en hann kom til liðsins á dögunum og varð um leið dýrasti varnarmaður sögunnar en kaupverðið var 75 milljónir punda.

Roberto Firmino hjálpað úr stúkunni af áhorfendum.
Roberto Firmino hjálpað úr stúkunni af áhorfendum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka