Gata í serbneska sveitarfélaginu Ub hefur verið nefnd í höfuðið á serbneska landsliðsmanninum Nemanja Matic, leikmanni Manchester United.
„Ákvörðunin hefur verið tekin en við erum að bíða eftir að Nemanja Matic gefi samþykki sitt,“ er haft eftir forsvarsmönnum sveitafélagsins á fréttaveitu AFP.
Matic er fæddur í bænum Vrelo sem er staðsettur rétt við Ub en Vrelo er um 60 kílómetra vestur af höfuðborginni Belgrad.
Matic hefur aldrei gleymt uppruna sínum og hann hefur meðal annars fjármagnað gervigrasvöll fyrir lið Jedinstvo Ub sem hann spilaði með í æsku. Matic gekk í raðir Manchester United í fyrra eftir að hafa spilað með liði Chelsea þar sem hann varð í tvígang Englandsmeistari með.