Sársaukinn sem leikmenn Manchester United urðu að þola á síðustu leiktíð er fjendurnir og nágrannarnir í City voru lofsamaðir og dáðir á leið sinni að Englandsmeistaratitlinum mun vera þeim hvatning til að gera betur í vetur.
Að minnsta kosti er Graeme Souness, sparkspekingur Sky Sports, sannfærður um það en hann telur að lærisveinar José Mourinho hjá United verði nær grönnum sínum á næsta tímabili.
„Það er erfitt að verja titilinn á Englandi. City hefur gæði í hverri einustu stöðu á vellinum og liðið getur eytt meiri pening en allir aðrir - en Manchester United er ekki ánægt að sjá granna sína fá allt hrósið. Þeir verða særðir og hættulegir í vetur,“ sagði Souness.
City varð enskur meistari í vor og lék á als oddi í deildinni, fékk yfir 100 stig og var dásamað fyrir skemmtilega, sóknarsinnaða knattspyrnu. Að sama skapi var lið United gjarnan gagnrýnt fyrir þunglamalegan stíl, þrátt fyrir að liðið hafi endað í öðru sæti.