Starfsmenn Chelsea hafa samkvæmt breska blaðinu Mirror fengið það verkefni að búa til svæði fyrir Maurizio Sarri, knattspyrnustjóra Chelsea, á Stamford Bridge þar sem hann getur brugðið sér afsíðis og kveikt í einni sígarettu án þess að brjóta nokkur lög.
Sarri er mikill reykingamaður og reykir á góðum degi í kringum 80 sígarettur á dag. Þetta gera fjórar til fimm sígarettur á klukkutíma. Á Ítalíu mátti oft sjá hann með sígarettu í munninum meðan á leik stóð en reykingalög í Bretlandi koma í veg fyrir að það sé hægt í ensku úrvalsdeildinni.
Það getur verið afar krefjandi fyrir hann að komast í gegnum heilan 90 mínútna leik án þess að fá sinn skammt af nikótíni. Í leik Chelsea og Huddersfield mátti sjá Sarri tyggja endann á sígarettustubbi til þess að slá á löngunina.
Einn stuðningsmaður Chelsea skrifaði á Twitter: „Maurizio Sarri er að tyggja sígarettu á bekknum vegna þess hann má ekki reykja á enskum knattspyrnuvöllum, hann er nú þegar orðinn minn uppáhaldsknattspyrnustjóri.“