José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segist tilheyra fámennum hóp bestu þjálfara heims jafnvel þótt honum takist ekki að vinna ensku úrvalsdeildina. United hefur tapað tveimur af þremur fyrstu leikjum sínum í deildinni sem er versta byrjun liðsins síðan 1992.
„Last þú aldrei neitt eftir heimspekinginn Hegel? Hann sagði að sannleikurinn væri í heildinni, þú finnur alltaf sannleikann í heildarmyndinni, “ sagði Mourinho við fjölmiðla eftir að hafa verið spurður hvort hann gæti talist sem frábær þjálfari þótt hann myndi ekki vinna titilinn með United.
„Ég er eini þjálfarinn til þess að vinna átta titla á Ítalíu, Spáni og Englandi – ekki litla titla – og annað sætið á síðasta keppnistímabili er eitt mitt mesta afrek.“
„Ég náði góðum árangri á síðustu leiktíð og það er eitthvað sem þið viljið ekki viðurkenna. Fyrir tveimur tímabilum síðan unnum við Evrópudeildina sem var frábært. Við unnum hana vegna þess að hún var á okkar getustigi. Við erum seinasta enska liðið til þess að vinna Evrópukeppni.“