Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur glímt við meiðsli í nára síðustu vikur og þau komu í veg fyrir að hann spilaði með Íslandi í leikjunum gegn Belgíu og Katar í þessari og síðustu viku.
Birkir greinir svo frá því á Instagram-síðu sinni í dag að hann hafi gengist undir aðgerð sem heppnaðist vel. „Ég sný aftur sterkari en nokkru sinni fyrr,“ skrifar Birkir með mynd af sér á sjúkrahúsinu.
Birkir meiddist í leik gegn QPR í ensku B-deildinni 26. október. Ekki er ljóst hve lengi til viðbótar hann verður frá keppni. „Birkir er í smá erfiðleikum. Hann þjáist af vöðvaverkjum í kringum nárann. Hann hefur ekkert æft síðustu vikurnar svo við verðum að bíða og sjá til með hann,“ sagði Dean Smith, knattspyrnustjóri Aston Villa, fyrr í dag.