Gylfi Þór Sigurðsson vann baráttuna við Aron Einar Gunnarsson þegar Everton og Cardiff áttust við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Félagarnir úr íslenska landsliðinu háðu margar rimmur á Goodison Park í dag og hafði Gylfi betur. Gylfi skoraði eina mark leiksins og hefur þar með skorað fimm mörk í síðustu átta leikjum sínum með Everton-liðinu og á hann stærstan þátt í að Everton hefur klifrað upp stigatöfluna en eftir sigurinn í dag er Everton í 6. sætinu.
Gylfi var valinn maður leiksins á Sky Sports en hann fékk 9 í einkunn fyrir frammistöðu sína. Aron Einar fékk 7 í einkunn í liði Cardiff. Gylfi var einnig valinn maður leiksins hjá BBC.