Pogba búinn að ákveða sig

Paul Pogba.
Paul Pogba. AFP

Paul Pogba er búinn að tjá liðsfélögum sínum í Manchester United að hann fari frá félaginu í sumar að því er fram kemur í frönskum fjölmiðlum.

Pogba, sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Manchester United, blómstraði með liði United fyrstu vikurnar eftir að Ole Gunnar Solskjær tók við liðinu af José Mourinho í desember. Fram að því hafði Frakkinn verið slakur og samband hans við Mourinho var stormasamt.

Pogba skoraði 9 mörk og gaf 7 stoðsendingar í fyrstu 14 leikjum undir stjórn Ole Gunnars en í síðustu leikjum hefur Frakkinn verið arfaslakur.

Franska íþróttablaðið L'Equipe segir að Pogba horfi til Real Madrid og hafi sagt við sína bestu vini að hann vilji fara til Spánar. Þá kemur fram að Manchester United ætli ekki að standa í vegi fyrir Pogba að fá að yfirgefa félagið komi gott tilboð í hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert