Englandsmeistarar Manchester City gætu átt yfir höfði sér að vera settir í skammarkrókinn í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. Félagið er nú til rannsóknar hjá sjálfstæðri nefnd hjá UEFA sem rannsakar fjármál knattspyrnufélaga.
Ritstjóri íþróttafrétta hjá BBC, Dan Roan, skrifar um málið í dag og hefur heimildir fyrir því að innan nefndarinnar sé stuðningur fyrir því að meina City þátttöku í Meistaradeildinni í eitt keppnistímabil ef ljóst þykir að félagið hafi brotið reglurnar.
Fyrir nefnd UEFA fer fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, Yves Leterme. Talið er að nefndin muni senda eitthvað frá sér í vikunni.
Þýska blaðið Spiegel greindi frá því í vetur að bæði City og franska félagið PSG hafi brotið reglur UEFA um fjármál knattspyrnufélaga. Refsingin hafi hins vegar eingöngu verið fjársektir en ekki refsingar sem meira bit væri í.
Reglurnar sem UEFA hefur sett kallast Financial Fair Play. Þar er meðal annars ætlast til þess að rekstur félaga sé sjálfbær í stað þess að ganga í sjóði efnaðra eigenda.
Meint brot City snýst um hvort rétt upphæð hafi verið gefin upp varðandi stóran samning við styrktaraðila.
Nefndin hefur ekki vald í málinu heldur eingöngu tillögurétt. Dómstóll innan UEFA kemur til með að skera úr um refsingu ef til þess kemur.