Philippe Coutinho, leikmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, er sagður vera á förum frá félaginu í sumar og segja fjölmiðlar á Englandi að hans gamla félag Liverpool hafi áhuga.
Coutinho hefur verið orðaður við endurkomu til Englands eftir misheppnaða dvöl á Spáni en Barcelona keypti hann í janúar 2018 fyrir 140 milljónir punda frá einmitt Liverpool. Brasilíumaðurinn hefur ekki náð sér á strik hjá spænsku meisturunum og er sagður vera kominn á sölulista félagsins.
Það eru Daily Express og Mirror sem færa fréttir af áhuga Liverpool en fyrr í vikunni var sóknarmaðurinn sagður á óskalista franska stórliðsins PSG. Þá er Chelsea einnig sagt áhugasamt um leikmanninn en Chelsea er í félagaskiptabanni og má því ekki kaupa leikmenn í næstu tveimur félagaskiptagluggum.