Ráðleggur United að selja rotin epli

Manchester United hefur lítið að gera við leikmenn sem hafa …
Manchester United hefur lítið að gera við leikmenn sem hafa ekki áhuga á því taka þátt í uppbyggingu félagsins að sögn Gary Neville. AFP

Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester United og núverandi sparkspekingur hjá Sky Sports, hefur hvatt United til þess að selja Paul Pogba í sumar. Pogba gaf það út á dögunum að hann vildi nýja áskorun á sínum ferli en hann kom til United frá Juventus sumarið 2016 en United borgaði 90 milljónir punda fyrir miðjumanninn.

Pogba hefur verið sterklega orðaður við bæði Juventus og Real Madrid að undanförnu en Gary Neville vill að félagið selji Pogba. „United er félag sem þarf ekki að halda neinum leikmanni. Það er enginn ómissandi hjá félaginu,“ sagði Neville í samtali við Sky Sports. „Það leikur enginn vafi á því að Manchester United er betra lið með Pogba innanborðs.“

„Það er ákveðin uppbygging í gangi hjá félaginu og þú þarft á leikmönnum að halda sem eru tilbúnir að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Ef Pogba er ekki tilbúinn til þess þarf félagið að selja hann. Ole Gunnar Solskjær þarf að hreinsa til í leikmannahópnum og losa sig við þá leikmenn sem eru ekki að kaupa hugmyndafræði hans.“

„Ef félagið ætlar sér fram veginn þarf liðið leikmenn sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig. Ég sjálfur veit ekki hvaða leikmenn ættu að fara eins og staðan er í dag. Skoðun mín breytist frá degi til dags en það eru margir leikmenn í liðinu sem eru ekki að gera neitt fyrir félagið, það eru rotin epli innan hópsins, og það er sorgleg þróun,“ sagði Neville enn fremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Hjörtur Herbertsson: En
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert