Liverpool tekur á móti Tottenham Hotspur á heimavelli sínum Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kl. 16.30 í dag, sunnudag. Heimamenn hafa komið sér makindalega fyrir á toppi deildarinnar með 25 stig af 27 mögulegum en gengi Tottenham hefur verið undir væntingum; liðið er í sjöunda sæti með aðeins 12 stig. Harry Kane og félagar hrukku þó í gang í Meistaradeild Evrópu í vikunni og eru ólíklegir til að leggjast niður og deyja í leik dagsins.
Svo skemmtilega vill til að þessi sömu lið áttust við í fyrstu beinu útsendingunni frá knattspyrnuleik í íslensku sjónvarpi; þegar þau glímdu um deildabikarinn, eða Mjólkurbikarinn eins og hann hét þá, á Wembley-leikvanginum í Lundúnum 13. mars 1982. Jafnt var eftir venjulegan leiktíma, 1:1; Steve Archibald kom Tottenham yfir snemma leiks en Ronnie Whelan jafnaði undir lokin. Það kom svo í hlut Bjarna Felixsonar, íþróttafréttamanns emeritus, að hryggbrjóta þjóðina með þeim tíðindum að Ríkissjónvarpið hefði ekki aðgang að gervihnettinum lengur og gæti fyrir vikið ekki sýnt framlenginguna. Þar tryggðu téður Whelan og Ian Rush Liverpool bikarinn með tveimur mörkum sem sparkelskir urðu að bíða í heila viku eftir að sjá í sjónvarpinu.
Löngu seinna, eða 3. maí 1997, þurfti Bjarni einnig að rjúfa leik sömu liða í úrvalsdeildinni á Anfield, um miðjan seinni hálfleik. Þá var gervihnötturinn að vísu enn þá til taks en leikurinn skaraðist aðeins við dálæti þjóðarinnar, Júróvisjón, þar sem Páll Óskar og Minn hinsti dans voru í eldlínunni, og varð að víkja. Litlar líkur verða að teljast á því að klippt verði á útsendinguna í dag.