Liverpool varð í kvöld heimsmeistari félagsliða í knattspyrnu í fyrsta skipti með því að sigra Suður-Ameríkumeistarana Flamengo frá Brasilíu, 1:0, í framlengdum úrslitaleik í Doha í Katar þar sem Brasilíumaðurinn Roberto Firmino skoraði sigurmark enska liðsins.
Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Brasilíumennirnir voru meira með boltann en hvorugt lið átti markskot sem rataði á markið. Liverpool var frískari aðilinn í byrjun leiksins en síðan dofnaði yfir liðinu og Flamengo réð ferðinni meirihluta hálfleiksins.
Liverpool hóf síðari hálfleik heldur betur af krafti því Roberto Firmino komst í gott færi á fyrstu mínútunni og átti skot í innanverða stöngina.
Á 53. mínútu var Barbosa tvívegis hættulegur, skaut fyrst yfir mark Liverpool eftir snögga sókn Flamengo og átti rétt á eftir fínt skot sem Alisson Becker varði í horn.
Liverpool varð fyrir áfalli á 74. mínútu þegar Alex Oxlade-Chamberlain fór af velli og virtist fyrst illa meiddur.
Á 86. mínútu átti Liverpool góða sókn sem lauk með því að Jordan Henderson átti hörkuskot sem Alves í marki Flamengo varði glæsilega í horn.
Þegar uppbótartíminn var að hefjast var dæmd vítaspyrna á Flamengo eftir brot á Sadio Mané. Dómarinn gaf sér góðan tíma til að taka endanlega ákvörðun með því að skoða myndband og ákvað að lokum að brotið hefði átt sér stað utan vítateigs. Endanlega niðurstaðan var sú að ekki hefði verið um brot að ræða og Flamengo fékk boltann!
Skömmu síðar var flautað til loka venjulegs leiktíma og því ljóst að framlengja þyrfti leikinn.
Staðan var 0:0.
Á 99. mínútu skoraði Roberto Firmino, 1:0 fyrir Liverpool. Sadio Mané komst inn í vítateiginn hægra megin og sendi til hliðar á Firmino. Hann var með markmann og varnarmann í sér en sneri þá laglega af sér og skoraði með föstu skoti.
Tveimur mínútum síðar varði Alves í marki Flamengo glæsilega eftir hörkuskot frá Mané. Upp úr hornspyrnunni varði Alves aftur vel frá Virgil van Dijk.
Staðan var 1:0 eftir fyrri hálfleik framlengingarinnar.
Trent Alexander-Arnold átti góða tilraun úr aukaspyrnu af 25 m færi á 115. mínútu en Diego Alves varði frá honum.
Á síðustu mínútu framlengingar fékk Flamengo gott færi til að jafna metin en Lincoln skaut yfir mark Liverpool úr miðjum vítateignum eftir sendingu frá hægri.
Lið Liverpool: Alisson Becker - Trent Alexander-Arnold, Joe Gomez, Virgil van Dijk, Andrew Robertson - Alex Oxlade-Chamberlain (Adam Lallana 75.), Jordan Henderson, Naby Keita (James Milner 100.) - Mohamed Salah (Xherdan Shaqiri 120.), Roberto Firmino (Divock Origi 106.), Sadio Mané.