Gylfi Þór Sigurðsson og samherjar hans í Everton höfðu betur gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Dominic Calvert-Lewin skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok. Leikurinn var sá fyrsti hjá Everton undir stjórn Carlo Ancelotti.
Gylfi lék allan leikinn með Everton, en Jóhann Berg Guðmundsson kom inn á sem varamaður á 68. mínútu hjá Burnley. Everton er í 13. sæti með 22 stig og Burnley í sætinu fyrir ofan með 24 stig.
Í einkunnargjöf Sky Sports var Gylfi valinn maður leiksins, en hann fékk 8 af 10 mögulegum fyrir frammistöðu sína og því góð byrjun fyrir framan nýja stjórann.
Svipmyndir úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan, en leikurinn var í beinni útsendingu á Símanum sport.