Wayne Rooney segir að Liverpool eigi skilið að yfirstandandi tímabil í ensku knattspyrnunni verði leikið til enda og að liðið verði krýnt Englandsmeistari.
Rooney hefur hins vegar áhyggjur af því að ekki verði hægt að klára tímabilið fyrr en í lok árs. „Liverpool verður enskur meistari. Ég fæ símtöl frá stuðningsmönnum Everton sem vilja að tímabilið verði dæmt ógilt,“ skrifaði Rooney í Sunday Times.
„Ég er Everton-maður sem spilaði með Manchester United í 13 ár og hluta af mér myndi finnast það gott. Liverpool hefur hins vegar staðið sig gríðarlega vel og á skilið að verða meistari,“ bætti hann við.
Rooney segir að mikið verði um málaferli, fari svo að tímabilið verði dæmt ógilt. „Við verðum að klára þetta tímabil. Málaferlin yrðu endalaus ef það yrði hætt við það og það gæti tekið langan tíma. Það kæmi mér ekki á óvart ef við yrðum til loka 2020 að klára tímabilið,“ skrifaði Rooney enn fremur.