Telur að Mané fari til Spánar

Sadio Mané er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool.
Sadio Mané er afar vinsæll hjá stuðningsmönnum Liverpool. AFP

Mohamed Sissoko, fyrrverandi leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, telur að Sadio Mané, sóknarmaður liðsins, muni fara til Real Madrid á Spáni einn góðan veðurdag. Mané hefur verið frábær fyrir Liverpool á tímabilinu en hann hefur skorað fjórtán mörk og lagt upp önnur sjö í 24 byrjunarliðsleikjum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Mané var nálægt því að ganga til liðs við Real Madrid sumarið 2018 samkvæmt fjölmiðlum á Spáni en Sissoko lék með Liverpool á árunum 2005 til ársins 2008 á að baki 33 landsleiki fyrir Malí. „Ég sé Mané fyrir mér hjá Real Madrid einn daginn,“ sagði Sissoko í samtali við enska fjölmiðla á dögunum.

„Mané býr yfir öllum þeim hæfileikum sem Zinedine Zidane, stjóri Real Madrid, er að leita eftir. Ég tel að hann muni fara til Spánar en hvenær það verður er erfitt að segja. Ég sé Salah hins vegar ekki fyrir mér hjá Real Madrid ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Annars veit maður ekki hvað Salah á marga leiki eftir í Liverpool-búningnum.“

„Hann gæti alveg farið eftir þetta tímabil þess vegna og ég held að það myndi bara gera liðinu gott. Forráðamenn félagsins hafa sýnt það og sannað að þeir eru mjög snjallir á leikmannamarkaðnum. Þeim myndi takast að fylla skarð hans og rúmlega það enda fullt af spennandi leikmönnum að koma upp í heiminum í dag,“ bætti Sissoko við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert