Forráðamenn liða í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu hafa átt í óformlegum viðræðum við íslensk stjórnvöld og KSÍ um að liðin komi hingað til lands og undirbúi sig fyrir endurkomu deildarinnar á Englandi en það er Fréttablaðið sem greinir frá þessu. Aðalástæða þess að liðin horfa til Íslands er árangur landsins í baráttunni við kórónuveiruna.
Þá greinir Fréttablaðið einnig frá því að lið frá Spáni hafi sýnt því áhuga að koma hingað til lands en þær viðræður eru þó ekki komnar langt á veg. Þá eiga æfingaútfærslur liðanna hér á landi að hafa verið ræddar innan embættis sóttvarnalæknis en ekkert hefur verið leikið í ensku úrvalsdeildinni síðan 9. mars.
Samkvæmt nýjustu fréttum frá Englandi er stefnt að því að hefja leik á Englandi 19. júní en allir íþróttaviðburðir í landinu eru bannaðir til og með 31. maí. Liðin myndu því koma hingað til lands mánaðamótin maí/júní en alls eru níu umferðir eftir af deildarkeppninni á Englandi eða 92 leikir.
Fréttablaðið segir að þá hafi það einnig komið til tals að einhverjir leikir ensku úrvalsdeildarinnar myndu fara hér fram en það verður þó að teljast ólíklegt. Að fá liðin hingað til lands í æfingaferð yrði engu að síður mikill fengur fyrir íslenskt efnahagslíf sem hefur verið í lamasessi síðan kórónuveirufaraldurinn braust út hér á landi.