Englandsmeistarar Liverpool fögnuðu Englandsmeistaratitlinum með stæl í kvöld eftir 5:3-sigur liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Eftir leik fór bikarinn á loft í Kop-stúkunni sögufrægu en leikmenn liðsins vildu lyfta bikarnum þar til þess að heiðra stuðningsmenn félagsins sem gátu ekki verið viðstaddir bikarafhendinguna vegna kórónuveirufaraldursins.
Leikmenn Liverpool gengu í átt að verðlaunapallinum undir ljúfum tónum Kanye West en lag hans All Of The Lights er mjög vinsælt í klefanum hjá leikmönnum liðsins.
Þegar bikarinn fór á loft hljómaði svo lagið A Sky Full Of Stars með bresku popphljómsveitinni Coldplay en það var engu til sparað þegar kom að bikarafhendingunni og kostaði hún í kringum 40.000 pund en það samsvarar tæplega sjö milljónum íslenskra króna.
Þetta var fyrsti Englandsmeistaratitill Liverpool í þrjátíu ár og í fyrsta sinn sem liðið vinnur ensku úrvalsdeildina frá stofnun hennar árið 1992 og var fögnuður leikmanna liðsins eftir því.