Enska knattspyrnufélagið Manchester City mun spila í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir að Alþjóðaíþróttadómstóllinn dæmdi félaginu í hag eftir að UEFA hafði úrskurðað félagið í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum fyrir brot á fjármálareglum í febrúar á þessu ári. Stefndi allt í að félagið yrði því ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.
Forráðamenn City ákváðu að áfrýja úrskurðinum til Alþjóðaíþróttadómstólsins sem tók málið fyrir og ákvað að taka áfrýjun enska félagsins til greina. Þá sektaði UEFA City um 30 milljónir evra vegna brotanna en Alþjóðaíþróttadómstóllinn hefur ákveðið að lækka þá sekt niður í 10 milljónir evra.
Dómstóllinn gaf í kvöld út 93 blaðsíðna skýrslu vegna málsins. Í henni kemur fram að ekki hafi verið hægt að sanna sekt félagsins og því hafi bannið verið dregið til baka. City var hins vegar sektað um 10 milljónirnar þar sem félagið þótti ekki samvinnuþýtt við rannsókn málsins.