Ónefndur leikmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool greindist með kórónuveiruna á æfingaferðalagi liðsins í Austurríki. Félagið hefur sjálft ekki staðfest tíðindin en The Mirror greinir frá.
Leikmannahópur og þjálfarateymi Liverpool mætti til Austurríki á föstudag og hafa allir innan félagsins farið reglulega í skimun fyrir veirunni. Þrátt fyrir fregnirnar verða engar breytingar gerðar á ferðahögum Liverpool og munu leikmenn áfram æfa í útjaðri Salzburg.
Enska félagið er einangrað í Austurríki, með heilt hótel fyrir sig og fjarri almenningi. Verður sá smitaði skimaður aftur til að ganga í skugga um að prófið hafi verið jákvætt. Reynist það jákvætt í annað sinn verður hann sendur í einangrun í minnst sjö daga.