Gylfi væntanlega í byrjunarliðinu á morgun

Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að hafa skorað mark í …
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar eftir að hafa skorað mark í deildabikarnum í haust. AFP

Gylfi Þór Sigurðsson verður væntanlega í byrjunarliði Everton gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Goodison Park á morgun.

Gylfi hefur komið inn á sem varamaður í þremur fyrstu leikjum liðsins í deildinni, sem Everton hefur unnið alla. Þeir James Rodriguez, Allan, Abdoulaye Doucouré og André Gomes hafa verið miðjumenn Everton í þessum þremur leikjum en Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri staðfesti að hvorki Allan né Gomes yrðu með gegn Brighton vegna meiðsla.

Gylfi hefur verið fyrirliði í öllum þremur leikjum Everton í deildabikarnum og kemur því í þennan leik í góðri leikæfingu.

Ennfremur skýrist ekki fyrr en á síðustu stundu hvort framherjinn Richarlison verði með en hann, Allan og varnarmaðurinn Jonjoe Kenny meiddust allir í leik gegn West Ham í deildabikarnum í fyrrakvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert