West Ham hafði betur gegn Fulham í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta, 1:0, eftir ótrúlegar lokamínútur.
Tékkinn Tomás Soucek kom West Ham yfir á fyrstu mínútu uppbótartímans.
Voru einhverjir stuðningsmenn West Ham byrjaðir að fagna sigri þegar Tom Cairney fór niður innan teigs eftir samstuð við Said Benhrama. Eftir skoðun í VAR benti Rob Jones dómari leiksins á punktinn.
Ademola Lookman fór á punktinn, en vítaspyrnan hans var skelfileg, því hann vippaði boltanum beint á Lukasz Fabianski sem átti ekki í neinum erfiðleikum með að grípa boltann.
Örstuttu síðar flautaði Jones til leiksloka og West Ham fagnaði sigri. West Ham er í 11. sæti með 11 stig og Fulham í 17. sæti með 4 stig.
Vítaspyrnuna og aðrar svipmyndir úr leiknum má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann sport.