Enska knattspyrnusambandið mun eiga krísufund með yfirvöldum þar í landi á morgun vegna fyrirhugaðs landsleiks Englands og Íslands á Wembley í Þjóðadeild UEFA 18. nóvember.
Eins og fram kom í morgun er framkvæmd leiksins í hættu vegna hertra aðgerða stjórnvalda á Englandi. Yfirvöld hafa bannað öll ferðalög frá Danmörku til Englands, en Íslendingar mæta Dönum í Kaupmannahöfn í sömu keppni þremur dögum fyrr og þyrftu því að fá undanþágu til að ferðast til Englands.
Nú segir MailOnline frá því að forráðamenn knattspyrnusambandsins og breskra yfirvalda muni funda á morgun en talið er að engar undantekningar verði gerðar á ferðabanninu til Danmerkur. Einn möguleiki í stöðunni er að flytja leikinn yfir á hlutlausan völl, utan Englands.