Ronaldo hefur áhrif á mataræði liðsfélaganna

Cristiano Ronaldo heldur sér afar vel við.
Cristiano Ronaldo heldur sér afar vel við. AFP

Endurkoma Cristiano Ronaldo til enska knattspyrnufélagsins Manchester United hefur ekki bara jákvæð áhrif á liðið innan vallar.

Lee Grant, fjórði markvörður United, greindi frá því að Ronaldo fylgi afar ströngu mataræði og að nokkrir leikmenn liðsins þyrðu því ekki lengur að fá sér eftirrétt.

„Bara sem dæmi um áhrifin sem hann er að hafa á hópinn, þá gerðist þetta á hótelinu á föstudagskvöld. Maður klárar kvöldmatinn sinn og venjulega á föstudagskvöldum má maður svindla aðeins. Maður fær sér eplamolaköku með vanillukremi eða brúnköku með rjóma,“ sagði Grant við Talksport.

Sagði hann það hins vegar vera vegna þess gífurlega heilsusamlega mataræðis sem Ronaldo fer eftir að enginn hafi lagt í að fá sér einhver sætindi.

„Ég er að segja ykkur það, ekki einn einasti leikmaður snerti eplamolakökuna með vanillukreminu, ekki einn einasti leikmaður fór að sækja sér brúnköku, allir sátu sem fastast.

Einn strákanna spyr mig: „Hvað er Cristiano með á diskinum sínum?“ Auðvitað er það hreinasti heilsusamlegasti diskur sem hægt er að ímynda sér,“ bætti Grant við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka