Manchesterliðin tvö, City og United, eru orðin tvö dýrustu knattspyrnulið í Evrópu samkvæmt útreikningum CIES Football Observatory sem hefur fundið út verðgildi leikmannahópa félaga í öllum sterkustu deildum álfunnar.
Verðmæti beggja liða er komið yfir einn milljarð punda, sem samsvarar 174 milljörðum íslenskra króna. Englendingar eiga líka þriðja verðmætasta liðið en það er Chelsea sem er metið á rúmlega 800 milljónir punda.
Þetta eru tíu verðmætustu lið Evrópu í dag, samkvæmt CIES:
1 Manchester City, Englandi, 1.095 milljónir punda
2 Manchester United, Englandi, 1.038 milljónir punda
3 Chelsea, Englandi, 809 milljónir punda
4 Barcelona, Spáni, 766 milljónir punda
5 Bayern München, Þýskalandi, 761 milljón punda
6 Liverpool, Englandi, 742 milljónir punda
7 Real Madrid, Spáni, 723 milljónir punda
8 París SG, Frakklandi, 691 milljón punda
9 Borussia Dortmund, Þýskalandi, 587 milljónir punda
10 Atlético Madrid, Spáni, 566 milljónir punda
Í heild sinni ber enska úrvalsdeildin höfuð og herðar yfir hinar fjórar stóru deildirnar í Evrópu en verðmat CIES á deildunum er þannig:
1 Enska úrvalsdeildin, 7,6 milljarðar punda
2 Spænska 1. deildin, 4,5 milljarðar punda
3 Þýska 1. deildin, 3,9 milljarðar punda
4 Ítalska A-deildin, 3,8 milljarðar punda
5 Franska 1. deildin, 2,9 milljarðar punda